Um NORDKLANG

Hvað er Nordklang?

NORDKLANG er kórahátíð Norðurlandanna, haldin á 3ja ára fresti og í sumar verður hún í fyrsta sinn á Íslandi, 29. júní – 2. júlí. 

Það er Landssamband blandaðra kóra, LBK, ásamt Félagi íslenskra kórstjóra, FÍK sem skipuleggur hátíðina og einnig ráðstefnu norrænna kórstjóra 27. – 29. júní.

Það er öllum sem hafa áhuga á að syngja velkomið að taka þátt hvort sem viðkomandi starfar í kór eða ekki. Hver og einn skráir sig sem einstaklingur og ekki er nauðsynlegt að allur kórinn taki þátt.

Kórahátíðin og kórstjóraráðstefnan fara fram í Háskólanum í Reykjavík og lokatónleikar verða í Eldborg í Hörpu. 

Boðið verður upp á 9 vinnusmiðjur með mismunandi þemum. Kórstjórar í fremstu röð frá öllum Norðurlöndunum stýra vinnusmiðjunum og þar verður unnið með fjölbreytta og spennandi tónlist. Allir vinnusmiðjuhóparnir koma fram á lokatónleikunum auk þess sem þátttökukórum gefst tækifæri til að halda tónleika meðan á hátíðinni stendur.

Hvað kostar og hvað er innifalið?

Þátttökugjaldið er 39.000 kr. á mann og er kennsla, söngbók, hádegismatur, kaffi, síðdegishressing eftir lokatónleikana í Hörpu og aðgangur að tónleikum innifalið.

Skráning

Skráning fer fram hér á síðunni með því að ýta á rauða hnappinn efst í hægra horni (neðst í Valmynd í snjalltækjum). Þar er beðið um allar nauðsynlegar upplýsingar og greiðsla á þátttökugjaldi fer fram.

Hótelgistingu er hægt að panta með því að skoða flipann Hotels og bóka gistingu í gegnum bókunarhlekki sem gefnir eru upp. 

Ef vandræði koma upp við skráningaferlið, hafið samband við Senu á netfangið nordklang@sena.is.